Hvenær er tími á skoðun?

Eftirtalin ökutæki skal fyrst færa til aðalskoðunar á fjórða ári eftir að þau eru skráð fyrsta sinni, að skráningarárinu frátöldu. Síðan skal skoða þau annað hvert ár í tvö næstu skiptin og árlega eftir það:

• Fólksbifreið
• Sendibifreið
• Bifhjól
• Eftirvagnar að leyfðri heildarþyngd 3.500 kg eða minna

Hjólhýsi, fellihýsi og tjaldvagna skal fyrst færa til aðalskoðunar á fjórða ári eftir að þau eru skráð fyrsta sinni, að skráningarárinu frátöldu, síðan á tveggja ára fresti.

Þau ökutæki sem færa skal árlega til aðalskoðunar eru eftirfarandi:

• Vörubifreið
• Hópbifreið
• Leigubifreið til mannflutninga
• Bifreið ætluð til sjúkraflutninga
• Eftirvagn með leyfða heildarþyngd meiri en 3.500 kg.
• Bifreiðar til neyðaraksturs

Almenna reglan er sú að ökutæki, skráð hér á landi, skal færa til aðalskoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækisins vísar til. Þannig skal ökutæki með skráningarmerkin sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 í október.

Hafi ökutæki einkamerki sem endar á tölustaf þá segir það númer til um skoðunarmánuðinn. Ef einkanúmerið endar hinsvegar á bókstaf skal færa það til skoðunar í fimmta mánuði ársins, þ.e. maí.

Færa skal eftirtalin ökutæki til aðalskoðunar fyrir 1. ágúst á skoðunarári:

• Fornbifreið
• Húsbifreið
• Bifhjól, þ.m.t. fornbifhjól og létt bifhjól
• Hjólhýsi
• Fellihýsi
• Tjaldvagn

Fornökutæki skal færa til skoðunar annað hvert ár og miðast skoðunarárið við fyrstu skráningu þ.a. fornökutæki sem var skráð fyrsta sinni á slétttöluári skal færa til skoðunar á slétttöluári og það sem skráð var fyrsta sinni á oddatöluári skal færa til skoðunar á oddatöluári.